Skólinn
Árbæjarskóli er einn stærsti grunnskóli landsins, staðsettur í einstöku umhverfi Elliðaárdalsins. Skólinn á sér rúmlega 50 ára starfssögu. Á árunum 1956–1966 var Árbæjarskóli starfræktur í samkomuhúsi á Árbæjarblettinum þar sem kennt var í þremur deildum en haustið 1967 hóf skólinn göngu sín í nýju húsi með 421 nemanda.
Í dag er Árbæjarskóli grunnskóli fyrir nemendur í 1.-10. bekk. Hann er einsetinn og eru nemendur hans 700 talsins. Skólinn er safnskóli á unglingastigi en þá koma til náms nemendur úr Árbæjarskóla, Ártúnsskóla og Selásskóla. Starfsmenn skólans eru um 100 sem sinna mismunandi störfum í þágu nemenda.
Með stjórnun skólans fara auk skólastjóra, tveir aðstoðarskólastjórar, tveir deildarstjórar, nemendaráð og skólaráð.
Frístundaheimilið Töfrasel er fyrir börn í 1-4 bekk í Árbæjarskóla og félagsmiðstöðin Ársel býður upp á fjölbreytt og skemmtilegt starf fyrir börn og unglinga.
- Skólastjóri er Guðlaug Sturlaugsdóttir
- Aðstoðarskólastjóri unglingadeildar er Guðrún Erna Þórhallsdóttir
- Aðstoðarskólastjóri yngri deildar er Þórhildur Þorbergsdóttir
- Deildarstjóri stoðþjónustu er Rannveig Þorvaldsdóttir
- Deildarstjóri verkefna er Sigurlaug Jensey Skúladóttir,
Skólastarfsemi
Starfsáætlun
Hvað er framundan í Árbæjarskóla? Í starfsáætlun finnur þú meðal annars stefnu skólans fyrir síðasta ár, skipulag kennslu og ótalmargt fleira.
Skólareglur
Grundvöllurinn að góðu skólastarfi er sá að hver og einn virði náunga sinn sem og sjálfan sig. Mikilvægt er að allir í skólastarfinu hafi tækifæri til að stunda vinnu sína án truflunar og áreitis annarra. Starfsmenn, nemendur og foreldrar skulu kynna sér skólareglur Árbæjarskóla. Skólareglur Árbæjarskóla eru endurskoðaðar á hverju ári. Þær eru kynntar foreldrum ásamt því að umsjónarkennarar fara yfir þær með nemendum við upphaf skólaárs.
Almennar skólareglur
- Samskipti í skólanum grundvallast á gagnkvæmri virðingu, jákvæðni, kurteisi og tillitssemi. Nemendur fari að fyrirmælum starfsmanna skólans.
- Foreldrar eru ábyrgir fyrir því að börn þeirra mæti stundvíslega í skólann með þau gögn sem nota skal hvern dag. Foreldrum ber að tilkynna veikindi og leyfi strax að morgni dags, að öðrum kosti er litið svo á að um óheimila fjarvist sé að ræða.
- Nemendur gangi vel um skólann sinn jafnt innan sem utan dyra.
- Notkun hjóla, hjólabretta, hlaupahjóla, rafhjóla og vélhjóla er ekki leyfð á skólalóðinni á skólatíma. Þessi farartæki eru ekki geymd inni í skólanum heldur þarf að geyma þau við hjólagrindur.
- Árbæjarskóli er símalaus skóli. Nemendum er ekki heimilt að nota síma á skólatíma nema með sérstöku leyfi kennara. Ef nemendur eru með síma í skólanum á hann að vera í skólatösku nemenda, í læstum skáp eða símateppi (í kennslustundum). Sama á við um heyrnartól, „airpods“, „buds“ og sambærilegt.
- Að nota Chromebook til að vera í tölvuleikum í kennslustundum/eða utan þeirra er brot á skólareglum og getur orðið til þess að nemandi verði sóttur af stjórnendum.
- Nemendum er ekki heimilt að nota eigin snjalltæki á skólatíma í skólahúsnæðinu nema undir handleiðslu og með leyfi kennara.
- Mynd- og hljóðupptökur eru aðeins leyfðar í skólahúsnæði og á skólalóð Árbæjarskóla á skólatíma með leyfi kennara og/eða stjórnenda skólans. Leita þarf samþykkis þeirra sem teknar eru mynd- og hljóðupptökur af. Myndir eða myndskeið sem tekin eru af nemendum eða starfsmönnum skólans er óheimilt að birta á netinu eða dreifa á annan hátt án leyfis viðkomandi.
- Nemendur komi með hollt og gott nesti að heiman. Við sérstök tilefni geta kennarar heimilað að nemendur komi með annars konar nesti.
- Nemendur neyta ekki sætinda, gos-, vítamín- eða orkudrykkja í skólanum á skólatíma.
- Nemendur eru hvorki í yfirhöfnum inni í kennslustofu né með höfuðföt nema með leyfi kennara.
- Öll neysla matar og drykkja í kennslustofum nemenda í 8. – 10. bekk, sem og á bókasafni, er óheimil.
Skólaráð
Við grunnskóla skal starfa skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Meginhlutverk skólaráðs að vera vettvangur fyrir alla fulltrúa skólasamfélagsins til að eiga samráð um málefni skólans.
Matur í grunnskólum
Skólamáltíðir eru gjaldfrjálsar veturinn 2024-2025 en mikilvægt er fyrir skólann að hafa áfram yfirsýn, halda utan um upplýsingar um ofnæmi og óþol og takmarka matarsóun. Því þarf eins og áður að skrá nemendur í mataráskrift.
Þeir nemendur sem voru skráðir í fyrra verða sjálfkrafa skráðir í áskrift en aðrir þurfa að skrá sig. Breyting á skráningu fer fram á matur.vala.is.
Foreldrasamstarf
Við erum öll í þessu saman, enda er oft sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn.
Í skólum borgarinnar er markvisst unnið að því að auka samráð við foreldra og styrkja aðkomu þeirra að skólastarfi.
Foreldrafélag er starfrækt í öllum skólum Reykjavíkurborgar.
Undanþága frá skólasókn
Hér má nálgast beiðni um leyfi í 3-5 daga fyrir nemendur.
Hér má nálgast beiðni um leyfi sem er umfram eina viku.
Mat á skólastarfi
Markmið mats og eftirlits með gæðum starfsins er m.a. að veita upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun.
Skólahverfi Árbæjarskóla
Í Reykjavík eru mörg skólahverfi og lögheimili barnsins ræður því í hvaða hverfisskóla það fer.
Barnið þitt hefur forgang í sinn hverfisskóla. Engu að síður eiga allir foreldrar kost á að sækja um skóla fyrir börn sín hvar sem er í borginni samkvæmt reglum um skólahverfi, umsókn og innritun.
Hér finnur þú upplýsingar um hvaða götur tilheyra skólahverfi Árbæjarskóla.